Af stolnum bílum og lögreglunni .........

.... Fyrsti kafli.

Nú get ég bara hreinlega ekki orða bundist lengur og ætla því að segja hér langa og stranga sögu af stolnum bílum og lögreglunni. Svo er ég líka orðin svo þreytt á að REYNA að útskýra þetta aftur og aftur fyrir fólki, svo með því að skjalfesta þetta hér, get ég bara sagt við fólk, þegar ég er orðin þreytt: Æ lestu bara bloggið mitt!

Sú var tíðin - áður en ég lenti í þeirri lífsreynslu að bíl frá mér var stolið - að ég hélt að lögreglan myndi vinna vinnuna sína - sem ég hélt að væri þeirra sko - og finna bílinn, rannsaka hann, fjarlæga aðskotahluti, og skila svo bílnum til löglegs eiganda. En eftir að hafa upplifað þessa reynslu í tvígang - reyndar ekki sambærileg atvik á nokkurn hátt utan vinnubrögð lögreglu - hefur mér skilist að lögreglan eigi HREINT ALLS EKKI að finna bílinn, HVAÐ ÞÁ að rannsaka bílinn, en þeim ber víst að skila honum til lögmæts eiganda, SVO FREMI SEM BÍLLINN SÉ Í VÖRSLU ÞEIRRA!!!!

Og hefst þá sagan endalausa (að því er virðist):

Fyrir um það bil einu og hálfu ári átti ég ofsa sætan Nissan Terrano sem stóð alltaf læstur hér á planinu heima hjá mér. Ég átti reyndar fleiri bíla á planinu, en í fyrsta kafla er bara talað um þennan fína Terrano. Einn sunnudagsmorgun, rétt undir hádegi, vakna ég við símann - sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að á hinum endanum var Lögreglan í Reykjavík. Og á þessum tíma var ég bara alls ekki vön við að fá símtöl frá lögreglunni. Og þessi vinalegi lögreglumaður spyr hvort ég eigi þennan Terrano? Jú segi ég svefndrukkin og skilningsvana??? Hvers vegna? Ja, getur verið að brotist hafi verið inn í hann í nótt? Dööööö, ég veit það bara ekki, hann er sko út á plani og ég er upp í rúmi, en ég get alveg gáð sko! Já myndirðu gera það og láta mig svo vita? Já auðvitað! Og á fjórföldum ljóshraða - þannig að engispretta myndi skammast sín - var ég komin í föt og út á plan og ....... sá bara engan Terrano, hvert sem ég leit!!! Ég stökk því inn og hringdi um hæl í lögregluna, og sagði: Hurru manni, ég bara veit ekki hvort var brotist inn í bílinn minn í nótt, því sko - hann er bara alls ekki á sínum stað!!!!!! Já einmitt, segir vinalegi lögreglumaðurinn, það var og! 

Og loksins fékkst botn í málið. Það var sem sé fullt af bílum stolið þessa nótt, og lögreglan með mann í haldi, grunaðan um aðild. Skráningarskírteinið úr mínum bíl hafði sem sé fundist í öðrum stolnum bíl og svo framvegis og svo framvegis. Ég þurfti að  bruna á Hverfisgötuna til að bera kennsl á þýfi úr bílnum, en fyrst ég væri að koma úr Hafnarfirði, ætti ég kannski að renna í gegnum bílastæðahúsið í Hamraborginni, því það væri "órökstuddur grunur" um að Terrano leyndist kannski þar! Og ég í Hamraborgina! Rifjaði upp nokkur góð unglingafyllerí þar, þangað til ég sá Blámann minn standa þarna einan og yfirgefinn - og HARÐLÆSTAN!!!! Ég reif upp gemsann - sem var farinn að hitna svolítið af öllum þessum símtölum við lögregluna - og sagði jú jú bíllinn minn er hér - stórskemmdur! Já einmitt, við sendum menn i þetta. Komdu bara hingað á stöðina. Og ég stökk af stað á löggustöðina. Fann þar eitt og annað úr Blámanni, þar á meðal talstöð og eitthvað fleira. Fór svo í vinnu, og mátti lítið vera að því að hugsa um þetta fram eftir kvöldi. Lauk vinnu um eittleytið, og fór þá áleiðis heim í hýra Hafnarfjörðinn, en ákvað að renna við í Hamraborginni og sjá hvort búið væri að fjarlægja bílinn minn. En - Blámann stóð ennþá einn og yfirgefinn þarna! Hmmmmm, og gemsinn rifinn upp enn einu sinni. Hringt í lögregluna. Svörin þau að þeir hefðu bara ekki komist í þetta, stórt slys um kvöldið, og allur mannskapur upptekinn við það. OK, mjög skiljanlegt. Heim í bælið og farið að sofa, viss um að úr þessu myndi leysast daginn eftir. Fæ símtal morguninn eftir, frá rannsóknarlögreglumanni hér í Hafnarfirðinum - enda fyrir tíma sameiningar lögregluembættanna -  til að spyrja eitthvað út í þetta mál. Ég svaraði eftir bestu getu, og spyr svo í sakleysi hvort bíllinn sé kominn í þeirra vörslu, og hvenær ég geti átt von á að fá hann aftur? Og maðurinn tapaði sér í símanum! Hvurslags fífl ég eiginlega væri, og afhverju ég væri ekki búin að sækja bílinn????? Ég sat á hinum endanum, og varð sjö spurningamerki í framan - og stamaði svo: Bíddu, mér var sagt að þið mynduð sækja bílinn og fara yfir hann???? Nei, við höfum ekkert við bílinn þinn að gera, enda telst málið upplýst, maður í haldi, og bara verið að klára lausa enda! Hmmm,. ok, en hvað með allt draslið í bílnum mínum sem tilheyrir ekki mér? Og hvað með skemmdirnar á bílnum??? Ekki minn hausverkur heyrist í lögreglumanninum! Ég æddi því af stað í Kópavog að sækja Blámann minn, og reif upp latex hanskana, tíndi öll sönnunargögn í poka, og skellti þeim inn á lögreglustöðina. Sendi svo viðkomandi lögreglumanni tölvupóst, og afrit til yfirvarðstjóra í Hafnarfirði, þar sem ég sagði að ég hefði komið með sönnunargögnin úr bílnum á stöðina, og hvert ég ætti að senda reikning fyrir vinnunni minni? Fékk aldrei svar við því, frá hvorugum! Svo var gert við Blámann, á minn kostnað, og fékk aldrei meira að heyra neitt frá lögreglu varðandi þetta mál. Lýkur hér fyrsta kafla af stolnum bílum og lögreglu.......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband