Lítið títt... eða ekki.

Magnað hvað yfir mig hellast upplýsingar, fréttir og kviksögur, nú þegar kjördagur nálgast. Kem engu frá mér, því flæðið er svo mikið. Verð samt að segja að ég er ánægð með þjóðfund og niðurstöður hans. Þetta gefur vonandi tóninn fyrir komandi stjórnlagaþing.

Af framboðsmálum er það helst að frétta að ég er komin með númer, rétt eins og allir aðrir frambjóðendur, mitt er 5526, sem ég er bara ágætlega sátt við.

Annars fara dagarnir í það að lesa hin ýmsu gögn, stjórnarskrár héðan og þaðan, og svo hinar ýmsu greinar og skjöl um eitt og annað.

Er að reyna að lemja saman færslu um þau mál sem brenna á mér, kannski hún verði tilbúin síðar í dag/kvöld, eða á morgun í síðasta lagi. Þangað til, góðar stundir.


... af framboðsmálum...

... er það helst að frétta að ég hef tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til setu á stjórnlagaþingi. Skilaði inn öllum gögnum á tilsettum tíma, og veit ekki betur en ég sé einn hinna 517 frambjóðenda. Ég er búin að setja upp facebook-síðu helgaða framboðinu, og ætla að setja hér inn helstu upplýsingar líka. Þó ekki í kvöld. Verð þó að geta þess að ég sat einkar áhugaverðan fund um stjórnarskrármál í Súlnasal Hótel Sögu nú um kvöldmatarleytið, þar sem stjórnlaganefnd hafði framsögu og sat fyrir svörum. Fullt af mjög mikilvægum málum sem hvíla á komandi stjórnlagaþingi, svo nú tekur tvennt við, annarsvegar að kynna sér hinar ýmsu hliðar þessarra mála, og hinsvegar að koma mér á framfæri. Facebook síðan er sem sé hér: http://www.facebook.com/pages/Berglind-Nanna-Frambod-til-stjornlagabings/158474427520290

 Annars held ég að það sé tímabært að henda mér undir dún, og sjá hvort ég fái einhverjar snilldarhugmyndir í draumalandinu. Meira á morgun.


...með sorg...

... kveðjum við mæðgin góðan vin frumburðarins, sem lét í minni pokann fyrir krabbameini síðastliðna nótt. Hvar er réttlætið í þessum heimi, þegar ungur drengur, á þröskuldi þess að verða fullvaxta maður, lætur lífið? Kona spyr sig!

Á sama tíma er ég að rifna úr stolti yfir frumburðinum, tengdadótturinni og vinahópnum, þau standa þétt við bak hvers annars á þessum sorgartímum, og tóku sig til í kvöld og fóru upp í Maríuhelli, til að kveikja á kertum og spila og syngja, því það var uppáhaldsstaður Þórs heitins. Mikið ofsalega er gott að sjá þetta unga fólk (því þau eru orðin fullvaxta, allavega flest þeirra) taka svona vel á hlutunum. Auðvitað vissum við í sjálfu sér að hverju stefndi, enda var hetjan búin að slást í 10 ár. Það breytir ekki því að áfallið er jafn erfitt. Og sorgin er jafn sár. Það sem þetta unga fólk hefur þó fram yfir marga aðra, er að þau létu það eftir sér að gera hlutina, þegar þannig stóð á, og því ekki jafn sár eftirsjá af hlutum sem hefði átt að gera, eða orðum sem hefði átt að segja. Frumburðurinn minn er svo flottur, en nú þarf ég svolítið að passa að hann fái líka útrás fyrir sorgina sína. Hann er svolítið líkur mömmu sinni, og því á hann það til að fara í hlutverk harðjaxlsins sem hugsar um alla aðra fyrst. Til allrar hamingju á hann yndislega kærustu, sem kann orðið tökin á honum. Gæti ekki hugsað mér yndislegri tengdadóttur!  

Og að fá þessar fréttir í kjölfar þessa hræðilega banaslyss á föstudag, var bara erfitt.

Hef ég sagt hér hvað ég er þakklát fyrir það sem ég á, og það sem ég má? Eða fyrir það sem ég get, og það sem ég er? Ég vona það, því ég er full af þakklæti! Ég lærði þá lexíu tiltölulega snemma á lífsleiðinni, að reyna að nýta mér erfiða reynslu til góðs. Vonandi hef ég náð að kenna mínum börnum þá lexíu líka. Með það í huga þakka ég fallinni hetju fyrir allar samverustundirnar, og fyrir allt sem hann gerði fyrir frumburðinn minn. Orð eru svo vanmáttug á svona stundum. Ég lærði ýmislegt af þessum unga manni, og ég ætla að hafa það allt ofarlega í farangrinum, þegar ég held áfram á þessari vegferð sem lífið er. 

Auðmjúk og sorgmædd, en þakklát fyrir svo margt, og ekki síst að stríðinu sé lokið, kveð ég hetjuna ungu, og bið fyrir honum um leið og ég fer í rúmið. 


Enn af stolnum bílum og lögreglu .........

Annar kafli:

 

Einn af HINUM bílunum á planinu sem vísað var í í síðustu færslu, var forláta Patrol jeppi, sem ég hafði skuldsett mig verulega til að eignast. Á þessum tíma átti ég líka eiginmann - ef eiginmann skyldi kalla - þar sem hann var hálfgerð landeyða og aumingi, og hreinlega sóun á súrefni! Sem betur fer losnaði ég við eiginmanninn elskulega snemma á síðasta ári, en þó ekki án fórnarkostnaðar. Hann var sem sé svo elskulegur eftir að hafa lamið mig í spað hér heima, að stinga af á Jeppanum ógurlega. Fyrstu vikuna eða svo var ég róleg, enda verið að reyna að ganga frá skilnaði, og ég var að leggja mig fram um að gera þetta án illinda. En fljótlega varð ljóst, að hann hafði annað í huga, og ekki hafði hann í huga að skila Jeppanum Ógurlega! Fékk reyndar bæði sms og símtöl þess efnis, að frekar myndi hann saga hann í tvennt og kveikja í honum en láta mig hafa hann. Jeppinn var tilkynntur stolinn, þar sem ég var skráður eigandi, og var líka að borga af honum, bæði tryggingar og lán, en ekki var nú mikið um viðbrögð hjá lögreglunni. Komst reyndar að því nokkru síðar, að þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að tilkynna hann stolinn á vefnum hjá sér! Ég fór svo á stúfana og fann bílinn fyrir þá - deja vu??? - og tilkynnti lögreglu að hann stæði fyrir utan bílaverkstæði í Hafnarfirðinum hýra, og að eigandi að téðu verkstæði væri besti vinur mannsins elskulega. Ég sagði þeim líka að ég hefði rætt við vininn, og gert honum grein fyrir að bíllinn væri stolinn, og að um leið og bíllinn færi inn fyrir dyr á verkstæðinu, væri hann orðinn samsekur. Leið og beið, og ekkert gerðist. Og bíllinn hvarf!

Nokkru síðar fann ég bílinn aftur, í þetta skiptið fyrir utan vinnustað mannsins elskulega. Kallaði til lögreglu, en lögreglan neitaði afskiptum af málinu, þar sem við værum ekki skilin að borði og sæng, og því í reynd einkamál. Nú, þá voru höfð snör handtök, ég seldi mömmu bílinn, og taldi málinu þar með borgið. En nei! Enn gerði lögregla ekkert í málinu. Leið svo það sem eftir var sumars, ég að hlaupa upp um fjöll og firnindi með túrhesta, og gat því lítið sinnt eftirliti með lögreglu. En í ágúst var bíllinn horfinn á nýjan leik. Leið og beið og Jeppinn Ógurlegi sást hvergi á götunum, og þrátt fyrir auglýsingar hér og þar á vefnum, og fjöldapóst til vina og vandræðamanna bárust engar fréttir af honum. Þangað til 8. nóvember síðastliðinn. Þá var liðin rúmlega meðganga frá því Jeppinn Ógurlegi hvarf af bílaplaninu hér heima. Í millitíðinni hafði þó eiginmaðurinn elskulegi hunskast til að skrifa undir skilnað að borði og sæng, og auk þess skrifað undir fjárskiptasamning, þar sem skýrt var kveðið á um að ég fengi Jeppann Ógurlega!!!! En aftur að 8. nóvember:

 

Frumburðurinn, sem er kominn með bílpróf fyrir þó nokkru, var úti á rúntinum umrætt kvöld. Hringdi svo í mig óðamála, og sagði, búinn að finna Jeppann Ógurlega, hann stendur á Miklubrautinni! Er á leiðinni að sækja þig! Og svo var skellt á. Ég skellti mér í skó og úlpu og var eins og skátarnir hér heima - ávallt viðbúin - tilbúin til að hlaupa út í bíl til að endurheimta þann Ógurlega. Brunað sem leið lá úr hýra Hafnarfirðinum inn í Reykjavík. Og við mér blasti Jeppinn Ógurlegi á bílastæði við Miklubrautina - engum blöðum um það að fletta! Einn galli var þó á þessu öllu: Hann var á vitlausum númerum!!!!!! Hmmmmmmmmm, eitthvað var rotið í ríki Dana!!!!

Bankaði upp á næsta húsi, til að spyrja út í þann ógurlega. Mér var svarað að "eigandinn" væri til húsa í þarnæsta húsi. Þakkaði pent fyrir mig, baðst aftur afsökunar á ónæðinu, og bankaði upp á í réttu húsi.  Loksins fannst "eigandinn", sem strax fór í vörn og var ósköp flausturslegur, en fullyrti að hann hefði keypt bílinn á Eyrarbakka. Hmm, jájá, og af hverjum? Get ég fengið að tala við þann mann? Jú, það var hægt, eftir mikið fum og fjaður. Frumburðurinn talaði við manninn á Eyrarbakka, og ljóst var á því símtali að sá maður laug eins og hann var langur til! "Eigandinn" kannaðist ekkert við eiginmanninn elskulega á þessu stigi málsins, kvaðst aldrei hafa heyrt hann nefndan á nafn einu sinni! Að endingu fórum við mæðgin út í bílinn sem við komum á, og ég hringdi í manninn sem seldi mér þann ógurlega. Hann kvaðst myndu vera kominn eftir smástund, enda búinn að fylgjast með harmsögunni af Jeppanum Ógurlega þetta árið. En varla var ég búin að kveðja hann, þegar "eigandinn" að Jeppanum mínum kom út, og spurði hvað við værum að gera, sitjandi í bíl beint fyrir aftan þann ógurlega. Ég svaraði til að nú væri bara beðið lögreglu, enda um stolið ökutæki að ræða. "Eigandinn" brást hinn versti við, og kvað okkur ekkert geta kyrrsett sig, og með það rauk hann af stað - á Jeppanum Ógurlega! Við mæðgin eltum, ég hringdi í fyrrum eiganda og sagði honum af breyttum áætlunum og að ég myndi láta hann vita þegar áfangastað væri náð. Enduðum í Ártúnsholtinu, þangað sem fyrrum eigandi kom. Hann labbaði með mér að þeim Ógurlega, og var sammála okkur mæðginum um að þarna væri óumdeilanlega Jeppinn Ógurlegi á ferð. Tókum svo "eigandann" aftur tali. Nú kannaðist hann hins vegar skyndilega við eiginmanninn elskulega, og jú, hann hefði keypt af honum hina ýmsu varahluti í "jeppann sinn" svo sem grind, drifhlutföll og eitthvað meira. Þegar þarna var komið sögu, fékk ég nóg, og reif upp gemsann. Fann númerið hjá Lögreglunni - sem er komið í hraðval á símanum - og bað um aðstoð. Hringdi svo líka í mömmu til að fá skráðan eiganda bílsins á staðinn. Svo kom lögreglan, og við gengum marga hringi kringum Jeppann Ógurlega, og bentum á hin ýmsu sérkenni á bílnum. "Eigandinn"  - sem var augljóslega góðkunningi lögreglunnar - var tekinn inn í bíl, og tæpri klukkustund síðar, afhenti hann lögreglunni bílinn - með semingi og þrasi þó. Síðan hefur Jeppinn Ógurlegi setið í lögregluportinu á Hverfisgötunni, og ég hef verið í brjálaðri vinnu við eftirlitsstörf með lögreglunni síðan. Hvorki gengið né rekið í að fá bílinn.

Fljótlega kom þó upp úr kafinu, að "eigandinn" var ekkert eigandi, heldur umráðamaður, og skráður eigandi að þessum bíl á nýju númerunum var ............ jú mikið rétt, bílaverkstæði besta vinarins! Hmmmmm, er einhver annar að kafna úr skítafýlu????? Það var líka ljóst að búið var að skipta um plötu í hvalbak í vélarrúmi, með svokölluðu VIN númeri jeppans, en þó illa gert, og auðsjáanlega búið að eiga við plötuna.

 

Ég fór svo í skýrslutöku, og hafði með mér myndir af Jeppanum Ógurlega. Komst þá að því að þetta var innanhúss-deilumál hjá lögreglunni - þeir voru að þrasa um hvaða deild lögreglunnar ætti að rannsaka málið!!! Kemur mér það við???? Benti á staðreyndir málsins og lögregluskýrslur máli mínu til stuðnings. Taldi svo málið í öruggum höndum, og var lofað að haft yrði samband á allra næstu dögum og að Jeppinn yrði færður til nánari skoðunar. Liðu nú reyndar nokkuð margir dagar, þangað til ég fékk næsta símtal frá lögreglunni. Í þetta skiptið rannsóknarlögreglumaður, og bókaður tími í aðra skýrslutöku. Hann var líka með skilaboð frá "eigandanum" margumtalaða, hann þyrfti að ná í mig. Ég hringdi í manninn, sem vildi ólmur klára málið hið fyrsta til að fá jeppann "sinn" og bauð mér Toyota Corolla hræ sem skaðabætur! Takk fyrir pent, nei! Ég vil bara fá Jeppann minn Ógurlega! Hann svaraði að það væri búið að rífa hann, en restin af honum stæði í Hafnarfirðinum. Fínt sagði ég, segðu mér þá HVAR í Hafnarfirðinum hann stendur, þannig að það væri hægt að ganga í að klára þetta, án þess að reyna að múta mér með einhverjum bílhræjum. En hann vildi það engan veginn og þar með lauk símtalinu. Þegar til þess kom að mæta í skýrslutökuna lá ég hins vegar fárveik í bælinu, og hafði samband við þennan lögreglumann og lét vita. Hann óskaði mér góðs bata og sagðist myndu hafa samband strax eftir helgina til að finna nýjan tíma. Þetta var 29. nóvember 2007. Leið nú fram á gamlársdag, að ekkert heyrðist frá lögreglu. Þá var þolinmæði mín á þrotum og ég stormaði á Hverfisgötuna um hálfellefu ásamt móður minni. Fengum viðtal við Friðrik Smára - sem mér reyndar skilst að sé ómögulegt með öllu, jafnvel fyrir fólk innanhúss - sem sagðist myndu beita sér í málinu strax á nýju ári. Fékk svo símtal rétt rúmum hálftíma síðar, og enn lofað öllu fögru.

 

Í dag fékk ég svo loksins símtalið frá lögreglumanninum frá því 29.11. Sennilega þessi helgi búin hjá honum - loksins. En nú var hann eiginlega bara að leita að eiginmanninum elskulega! Ég er blessunarlega skilin við hann fyrir þó nokkru síðan, og get því lítið sagt um hvar hann heldur sig eða hvað hann er að gera, en gaf þó þær litlu upplýsingar sem ég hef - sem eru reyndar meiri en ég kæri mig um að hafa. Og þar situr málið nú!

Og ég er orðin verulega þreytt og pirruð á að eiga þennan Ógurlega Jeppa, sem situr bara í lögregluportinu, engum til gagns, meðan ég borga enn lánið af bílnum, enn að borga tryggingar og bifreiðagjöld, og sit svo bíllaus í hýra Hafnarfirðinum!!!! Urrrrrrrr og Grrrrrrrr eins og Stasi mín myndi orða það!!!!! Næsti kafli kemur vonandi í næstu viku, þegar lögfræðingur hefur verið fenginn í málið!


Af stolnum bílum og lögreglunni .........

.... Fyrsti kafli.

Nú get ég bara hreinlega ekki orða bundist lengur og ætla því að segja hér langa og stranga sögu af stolnum bílum og lögreglunni. Svo er ég líka orðin svo þreytt á að REYNA að útskýra þetta aftur og aftur fyrir fólki, svo með því að skjalfesta þetta hér, get ég bara sagt við fólk, þegar ég er orðin þreytt: Æ lestu bara bloggið mitt!

Sú var tíðin - áður en ég lenti í þeirri lífsreynslu að bíl frá mér var stolið - að ég hélt að lögreglan myndi vinna vinnuna sína - sem ég hélt að væri þeirra sko - og finna bílinn, rannsaka hann, fjarlæga aðskotahluti, og skila svo bílnum til löglegs eiganda. En eftir að hafa upplifað þessa reynslu í tvígang - reyndar ekki sambærileg atvik á nokkurn hátt utan vinnubrögð lögreglu - hefur mér skilist að lögreglan eigi HREINT ALLS EKKI að finna bílinn, HVAÐ ÞÁ að rannsaka bílinn, en þeim ber víst að skila honum til lögmæts eiganda, SVO FREMI SEM BÍLLINN SÉ Í VÖRSLU ÞEIRRA!!!!

Og hefst þá sagan endalausa (að því er virðist):

Fyrir um það bil einu og hálfu ári átti ég ofsa sætan Nissan Terrano sem stóð alltaf læstur hér á planinu heima hjá mér. Ég átti reyndar fleiri bíla á planinu, en í fyrsta kafla er bara talað um þennan fína Terrano. Einn sunnudagsmorgun, rétt undir hádegi, vakna ég við símann - sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að á hinum endanum var Lögreglan í Reykjavík. Og á þessum tíma var ég bara alls ekki vön við að fá símtöl frá lögreglunni. Og þessi vinalegi lögreglumaður spyr hvort ég eigi þennan Terrano? Jú segi ég svefndrukkin og skilningsvana??? Hvers vegna? Ja, getur verið að brotist hafi verið inn í hann í nótt? Dööööö, ég veit það bara ekki, hann er sko út á plani og ég er upp í rúmi, en ég get alveg gáð sko! Já myndirðu gera það og láta mig svo vita? Já auðvitað! Og á fjórföldum ljóshraða - þannig að engispretta myndi skammast sín - var ég komin í föt og út á plan og ....... sá bara engan Terrano, hvert sem ég leit!!! Ég stökk því inn og hringdi um hæl í lögregluna, og sagði: Hurru manni, ég bara veit ekki hvort var brotist inn í bílinn minn í nótt, því sko - hann er bara alls ekki á sínum stað!!!!!! Já einmitt, segir vinalegi lögreglumaðurinn, það var og! 

Og loksins fékkst botn í málið. Það var sem sé fullt af bílum stolið þessa nótt, og lögreglan með mann í haldi, grunaðan um aðild. Skráningarskírteinið úr mínum bíl hafði sem sé fundist í öðrum stolnum bíl og svo framvegis og svo framvegis. Ég þurfti að  bruna á Hverfisgötuna til að bera kennsl á þýfi úr bílnum, en fyrst ég væri að koma úr Hafnarfirði, ætti ég kannski að renna í gegnum bílastæðahúsið í Hamraborginni, því það væri "órökstuddur grunur" um að Terrano leyndist kannski þar! Og ég í Hamraborgina! Rifjaði upp nokkur góð unglingafyllerí þar, þangað til ég sá Blámann minn standa þarna einan og yfirgefinn - og HARÐLÆSTAN!!!! Ég reif upp gemsann - sem var farinn að hitna svolítið af öllum þessum símtölum við lögregluna - og sagði jú jú bíllinn minn er hér - stórskemmdur! Já einmitt, við sendum menn i þetta. Komdu bara hingað á stöðina. Og ég stökk af stað á löggustöðina. Fann þar eitt og annað úr Blámanni, þar á meðal talstöð og eitthvað fleira. Fór svo í vinnu, og mátti lítið vera að því að hugsa um þetta fram eftir kvöldi. Lauk vinnu um eittleytið, og fór þá áleiðis heim í hýra Hafnarfjörðinn, en ákvað að renna við í Hamraborginni og sjá hvort búið væri að fjarlægja bílinn minn. En - Blámann stóð ennþá einn og yfirgefinn þarna! Hmmmmm, og gemsinn rifinn upp enn einu sinni. Hringt í lögregluna. Svörin þau að þeir hefðu bara ekki komist í þetta, stórt slys um kvöldið, og allur mannskapur upptekinn við það. OK, mjög skiljanlegt. Heim í bælið og farið að sofa, viss um að úr þessu myndi leysast daginn eftir. Fæ símtal morguninn eftir, frá rannsóknarlögreglumanni hér í Hafnarfirðinum - enda fyrir tíma sameiningar lögregluembættanna -  til að spyrja eitthvað út í þetta mál. Ég svaraði eftir bestu getu, og spyr svo í sakleysi hvort bíllinn sé kominn í þeirra vörslu, og hvenær ég geti átt von á að fá hann aftur? Og maðurinn tapaði sér í símanum! Hvurslags fífl ég eiginlega væri, og afhverju ég væri ekki búin að sækja bílinn????? Ég sat á hinum endanum, og varð sjö spurningamerki í framan - og stamaði svo: Bíddu, mér var sagt að þið mynduð sækja bílinn og fara yfir hann???? Nei, við höfum ekkert við bílinn þinn að gera, enda telst málið upplýst, maður í haldi, og bara verið að klára lausa enda! Hmmm,. ok, en hvað með allt draslið í bílnum mínum sem tilheyrir ekki mér? Og hvað með skemmdirnar á bílnum??? Ekki minn hausverkur heyrist í lögreglumanninum! Ég æddi því af stað í Kópavog að sækja Blámann minn, og reif upp latex hanskana, tíndi öll sönnunargögn í poka, og skellti þeim inn á lögreglustöðina. Sendi svo viðkomandi lögreglumanni tölvupóst, og afrit til yfirvarðstjóra í Hafnarfirði, þar sem ég sagði að ég hefði komið með sönnunargögnin úr bílnum á stöðina, og hvert ég ætti að senda reikning fyrir vinnunni minni? Fékk aldrei svar við því, frá hvorugum! Svo var gert við Blámann, á minn kostnað, og fékk aldrei meira að heyra neitt frá lögreglu varðandi þetta mál. Lýkur hér fyrsta kafla af stolnum bílum og lögreglu.......


Komin heim eftir erfiða en skemmtilega viku á ferðinni.

Kom í bæinn á föstudagskvöldið, þreytt en sæl eftir vel heppnaða hringferð með alveg frábærum hópi. Skemmtilegasti hópur sem ég hef haft hingað til, og ég gat ekki annað en fellt tár á vellinum á laugardag þegar ég skilaði þeim. En ég fæ allavega einn...

Komin á Djúpavog.

Er komin á Djúpavog með hópinn, búið að vera alveg frábært. Veðrið gott, en ekki mikil sól. Hópurinn sem ég er með eru jarðfræði og landafræðinemar og prófessorar frá háskóla í Ohio, og þau halda ekki vatni yfir landinu, veðrinu og mér! Verð á Eiðum...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband