Enn af stolnum bílum og lögreglu .........

Annar kafli:

 

Einn af HINUM bílunum á planinu sem vísað var í í síðustu færslu, var forláta Patrol jeppi, sem ég hafði skuldsett mig verulega til að eignast. Á þessum tíma átti ég líka eiginmann - ef eiginmann skyldi kalla - þar sem hann var hálfgerð landeyða og aumingi, og hreinlega sóun á súrefni! Sem betur fer losnaði ég við eiginmanninn elskulega snemma á síðasta ári, en þó ekki án fórnarkostnaðar. Hann var sem sé svo elskulegur eftir að hafa lamið mig í spað hér heima, að stinga af á Jeppanum ógurlega. Fyrstu vikuna eða svo var ég róleg, enda verið að reyna að ganga frá skilnaði, og ég var að leggja mig fram um að gera þetta án illinda. En fljótlega varð ljóst, að hann hafði annað í huga, og ekki hafði hann í huga að skila Jeppanum Ógurlega! Fékk reyndar bæði sms og símtöl þess efnis, að frekar myndi hann saga hann í tvennt og kveikja í honum en láta mig hafa hann. Jeppinn var tilkynntur stolinn, þar sem ég var skráður eigandi, og var líka að borga af honum, bæði tryggingar og lán, en ekki var nú mikið um viðbrögð hjá lögreglunni. Komst reyndar að því nokkru síðar, að þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að tilkynna hann stolinn á vefnum hjá sér! Ég fór svo á stúfana og fann bílinn fyrir þá - deja vu??? - og tilkynnti lögreglu að hann stæði fyrir utan bílaverkstæði í Hafnarfirðinum hýra, og að eigandi að téðu verkstæði væri besti vinur mannsins elskulega. Ég sagði þeim líka að ég hefði rætt við vininn, og gert honum grein fyrir að bíllinn væri stolinn, og að um leið og bíllinn færi inn fyrir dyr á verkstæðinu, væri hann orðinn samsekur. Leið og beið, og ekkert gerðist. Og bíllinn hvarf!

Nokkru síðar fann ég bílinn aftur, í þetta skiptið fyrir utan vinnustað mannsins elskulega. Kallaði til lögreglu, en lögreglan neitaði afskiptum af málinu, þar sem við værum ekki skilin að borði og sæng, og því í reynd einkamál. Nú, þá voru höfð snör handtök, ég seldi mömmu bílinn, og taldi málinu þar með borgið. En nei! Enn gerði lögregla ekkert í málinu. Leið svo það sem eftir var sumars, ég að hlaupa upp um fjöll og firnindi með túrhesta, og gat því lítið sinnt eftirliti með lögreglu. En í ágúst var bíllinn horfinn á nýjan leik. Leið og beið og Jeppinn Ógurlegi sást hvergi á götunum, og þrátt fyrir auglýsingar hér og þar á vefnum, og fjöldapóst til vina og vandræðamanna bárust engar fréttir af honum. Þangað til 8. nóvember síðastliðinn. Þá var liðin rúmlega meðganga frá því Jeppinn Ógurlegi hvarf af bílaplaninu hér heima. Í millitíðinni hafði þó eiginmaðurinn elskulegi hunskast til að skrifa undir skilnað að borði og sæng, og auk þess skrifað undir fjárskiptasamning, þar sem skýrt var kveðið á um að ég fengi Jeppann Ógurlega!!!! En aftur að 8. nóvember:

 

Frumburðurinn, sem er kominn með bílpróf fyrir þó nokkru, var úti á rúntinum umrætt kvöld. Hringdi svo í mig óðamála, og sagði, búinn að finna Jeppann Ógurlega, hann stendur á Miklubrautinni! Er á leiðinni að sækja þig! Og svo var skellt á. Ég skellti mér í skó og úlpu og var eins og skátarnir hér heima - ávallt viðbúin - tilbúin til að hlaupa út í bíl til að endurheimta þann Ógurlega. Brunað sem leið lá úr hýra Hafnarfirðinum inn í Reykjavík. Og við mér blasti Jeppinn Ógurlegi á bílastæði við Miklubrautina - engum blöðum um það að fletta! Einn galli var þó á þessu öllu: Hann var á vitlausum númerum!!!!!! Hmmmmmmmmm, eitthvað var rotið í ríki Dana!!!!

Bankaði upp á næsta húsi, til að spyrja út í þann ógurlega. Mér var svarað að "eigandinn" væri til húsa í þarnæsta húsi. Þakkaði pent fyrir mig, baðst aftur afsökunar á ónæðinu, og bankaði upp á í réttu húsi.  Loksins fannst "eigandinn", sem strax fór í vörn og var ósköp flausturslegur, en fullyrti að hann hefði keypt bílinn á Eyrarbakka. Hmm, jájá, og af hverjum? Get ég fengið að tala við þann mann? Jú, það var hægt, eftir mikið fum og fjaður. Frumburðurinn talaði við manninn á Eyrarbakka, og ljóst var á því símtali að sá maður laug eins og hann var langur til! "Eigandinn" kannaðist ekkert við eiginmanninn elskulega á þessu stigi málsins, kvaðst aldrei hafa heyrt hann nefndan á nafn einu sinni! Að endingu fórum við mæðgin út í bílinn sem við komum á, og ég hringdi í manninn sem seldi mér þann ógurlega. Hann kvaðst myndu vera kominn eftir smástund, enda búinn að fylgjast með harmsögunni af Jeppanum Ógurlega þetta árið. En varla var ég búin að kveðja hann, þegar "eigandinn" að Jeppanum mínum kom út, og spurði hvað við værum að gera, sitjandi í bíl beint fyrir aftan þann ógurlega. Ég svaraði til að nú væri bara beðið lögreglu, enda um stolið ökutæki að ræða. "Eigandinn" brást hinn versti við, og kvað okkur ekkert geta kyrrsett sig, og með það rauk hann af stað - á Jeppanum Ógurlega! Við mæðgin eltum, ég hringdi í fyrrum eiganda og sagði honum af breyttum áætlunum og að ég myndi láta hann vita þegar áfangastað væri náð. Enduðum í Ártúnsholtinu, þangað sem fyrrum eigandi kom. Hann labbaði með mér að þeim Ógurlega, og var sammála okkur mæðginum um að þarna væri óumdeilanlega Jeppinn Ógurlegi á ferð. Tókum svo "eigandann" aftur tali. Nú kannaðist hann hins vegar skyndilega við eiginmanninn elskulega, og jú, hann hefði keypt af honum hina ýmsu varahluti í "jeppann sinn" svo sem grind, drifhlutföll og eitthvað meira. Þegar þarna var komið sögu, fékk ég nóg, og reif upp gemsann. Fann númerið hjá Lögreglunni - sem er komið í hraðval á símanum - og bað um aðstoð. Hringdi svo líka í mömmu til að fá skráðan eiganda bílsins á staðinn. Svo kom lögreglan, og við gengum marga hringi kringum Jeppann Ógurlega, og bentum á hin ýmsu sérkenni á bílnum. "Eigandinn"  - sem var augljóslega góðkunningi lögreglunnar - var tekinn inn í bíl, og tæpri klukkustund síðar, afhenti hann lögreglunni bílinn - með semingi og þrasi þó. Síðan hefur Jeppinn Ógurlegi setið í lögregluportinu á Hverfisgötunni, og ég hef verið í brjálaðri vinnu við eftirlitsstörf með lögreglunni síðan. Hvorki gengið né rekið í að fá bílinn.

Fljótlega kom þó upp úr kafinu, að "eigandinn" var ekkert eigandi, heldur umráðamaður, og skráður eigandi að þessum bíl á nýju númerunum var ............ jú mikið rétt, bílaverkstæði besta vinarins! Hmmmmm, er einhver annar að kafna úr skítafýlu????? Það var líka ljóst að búið var að skipta um plötu í hvalbak í vélarrúmi, með svokölluðu VIN númeri jeppans, en þó illa gert, og auðsjáanlega búið að eiga við plötuna.

 

Ég fór svo í skýrslutöku, og hafði með mér myndir af Jeppanum Ógurlega. Komst þá að því að þetta var innanhúss-deilumál hjá lögreglunni - þeir voru að þrasa um hvaða deild lögreglunnar ætti að rannsaka málið!!! Kemur mér það við???? Benti á staðreyndir málsins og lögregluskýrslur máli mínu til stuðnings. Taldi svo málið í öruggum höndum, og var lofað að haft yrði samband á allra næstu dögum og að Jeppinn yrði færður til nánari skoðunar. Liðu nú reyndar nokkuð margir dagar, þangað til ég fékk næsta símtal frá lögreglunni. Í þetta skiptið rannsóknarlögreglumaður, og bókaður tími í aðra skýrslutöku. Hann var líka með skilaboð frá "eigandanum" margumtalaða, hann þyrfti að ná í mig. Ég hringdi í manninn, sem vildi ólmur klára málið hið fyrsta til að fá jeppann "sinn" og bauð mér Toyota Corolla hræ sem skaðabætur! Takk fyrir pent, nei! Ég vil bara fá Jeppann minn Ógurlega! Hann svaraði að það væri búið að rífa hann, en restin af honum stæði í Hafnarfirðinum. Fínt sagði ég, segðu mér þá HVAR í Hafnarfirðinum hann stendur, þannig að það væri hægt að ganga í að klára þetta, án þess að reyna að múta mér með einhverjum bílhræjum. En hann vildi það engan veginn og þar með lauk símtalinu. Þegar til þess kom að mæta í skýrslutökuna lá ég hins vegar fárveik í bælinu, og hafði samband við þennan lögreglumann og lét vita. Hann óskaði mér góðs bata og sagðist myndu hafa samband strax eftir helgina til að finna nýjan tíma. Þetta var 29. nóvember 2007. Leið nú fram á gamlársdag, að ekkert heyrðist frá lögreglu. Þá var þolinmæði mín á þrotum og ég stormaði á Hverfisgötuna um hálfellefu ásamt móður minni. Fengum viðtal við Friðrik Smára - sem mér reyndar skilst að sé ómögulegt með öllu, jafnvel fyrir fólk innanhúss - sem sagðist myndu beita sér í málinu strax á nýju ári. Fékk svo símtal rétt rúmum hálftíma síðar, og enn lofað öllu fögru.

 

Í dag fékk ég svo loksins símtalið frá lögreglumanninum frá því 29.11. Sennilega þessi helgi búin hjá honum - loksins. En nú var hann eiginlega bara að leita að eiginmanninum elskulega! Ég er blessunarlega skilin við hann fyrir þó nokkru síðan, og get því lítið sagt um hvar hann heldur sig eða hvað hann er að gera, en gaf þó þær litlu upplýsingar sem ég hef - sem eru reyndar meiri en ég kæri mig um að hafa. Og þar situr málið nú!

Og ég er orðin verulega þreytt og pirruð á að eiga þennan Ógurlega Jeppa, sem situr bara í lögregluportinu, engum til gagns, meðan ég borga enn lánið af bílnum, enn að borga tryggingar og bifreiðagjöld, og sit svo bíllaus í hýra Hafnarfirðinum!!!! Urrrrrrrr og Grrrrrrrr eins og Stasi mín myndi orða það!!!!! Næsti kafli kemur vonandi í næstu viku, þegar lögfræðingur hefur verið fenginn í málið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Það er náttúrlega ekki hlæjandi að þessu ... alls ekki skilurðu .. en ég get samt ekki alveg stillt mig, tíhí .... en það er frásagnarmátinn. Stórkarlalegast hló ég að þessari: „Leið svo það sem eftir var sumars, ég að hlaupa upp um fjöll og firnindi með túrhesta, og gat því lítið sinnt eftirliti með lögreglu.“ - En ég ítreka, alls ekki fyndið ... Gangi þér vel með eftirreksturinn.

Berglind Steinsdóttir, 4.1.2008 kl. 01:46

2 Smámynd: Berglind Nanna Ólínudóttir

Nei auðvitað er þetta alls ekki fyndið - en það má samt vel hlæja að þessu kæra nafna!!!! Og í raun það eina sem hægt er að gera í stöðunni! En takk fyrir þetta samt elskan!

Berglind Nanna Ólínudóttir, 4.1.2008 kl. 01:53

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæl.

Ég hefi tileinkað mér eitt máltæki, sem er " það er ekki öll vitleysan eins heldur aðeins mismunandi " sýnist það eiga vel við í þessu tilviki.

kveðja.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.1.2008 kl. 02:16

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

kannski er þarna kjarninn í kjaramálum lögreglunnar, óþjálfaðir fólk sem sinnir lögreglumálum, sem hafa engann áhuga á starfi sínu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.1.2008 kl. 02:57

5 identicon

Æji já Berglind mín ég kannast við drollugang hjá lögreglunni,hún er búin að vera með mál fyrir mig síðan í Júlí 07 og ekkert gerist enþa :)

Heitir þessi dreng asni á Eyrarbakka nokkuð Sigurvin ????????? Ef svo er þá segi ég bara varaðu þig á honum því öðrum eins rugludalli hef ég aldrey kynnst

Íris G (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 03:16

6 identicon

já ekki gaman krúttið mitt. Ótrúlegt hvað áherslurnar á málefni geta verið skrítnar hjá lögreglunni.  Kannski eins gott að ég efndi ekki loforðið mitt við pabba um að verða lögga? Þótt ég sé að vísu viss um að gallinn færi mér vel ;-)

Sylvía (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 10:31

7 identicon

Ja hérna .....ætlar þetta engann endir að taka??

Inda (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 17:09

8 identicon

jahérna það er naumast eg hef nu aldrei lennt í svona hjá lögguni kannski utað því að löggan her ut á landi er mikið betri eins og allt annap herna heldur en á þessu guðssvolaða pleisi fyrir sunnan

Flames (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 19:01

9 Smámynd: Agný

Það er aldeilis fjör hjá þér frænka en svona án gríns þá get ég trúað að þetta vesen taki á taugarnar....

Agný, 12.1.2008 kl. 16:31

10 identicon

Sæl og takk fyrir innlitið og það er alveg spurn hvort eg þarf að fara kíka suður bara til að endurhlaða batteríinn

Flames (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband